Þeir þurfa að vera stuttorðir þingmennirnir sem vilja tjá sig um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna á Alþingi í dag enda önnur umræða um jafnréttisfrumvarpið sú fyrsta sem fer fram eftir að ný þingskapalög tóku gildi.
Með lögunum er ræðutími þingmanna takmarkaður en þeir sem hafa margt fram að færa þurfa þó ekki að örvænta enda mega þeir taka til máls eins oft og þeir vilja. Áður var ræðutími aðeins takmarkaður í fyrstu umræðu en nú munu takmarkanir gilda á öllum stigum máls. Þingmenn sem ætla að tjá sig um jafnréttisfrumvarpið í dag geta talað fyrst í 20 mínútur, síðan í 10 mínútur og svo eins oft og þeir vilja í fimm mínútur í senn.
Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, segist spenntur að sjá hvernig framkvæmd nýju laganna tekst til en hann gerir jafnframt ráð fyrir að þemaskipta umræðum á þingi meira en hefur verið gert. Þannig verða t.d. mál sem heyra undir félagsmálaráðuneyti allsráðandi á þingi í dag en á fimmtudag verða fjármál til umræðu.