Tryggingafélag þarf ekki að greiða kaskótryggingu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Tryggingamiðstöðina af kröfu eigenda bíls um að greidd verði kaskótrygging vegna tjóns, sem varð á bílnum. Dómurinn segir að allar líkur bendi til þess, að orsakatengsl séu á milli ölvunar umsjónarmanns bílsins og tjónsins.

Fram kemur í dómnum, að lögregla var send á vettvang umferðaróhapps á hringtorgi á gatnamótum Suðurgötu og Hringbrautar. Samkvæmt lögregluskýrslu hafði greinilega verið ekið þvert yfir hringtorgið og einnig  ekið á lofttúður, sem standa upp úr jörðinni á miðju torgsins. Á vettvangi fannst skráningarnúmer bíls ásamt braki og bíllinn fannst síðan á bílastæði við hús ekki langt frá. 

Lögreglan knúði dyra að húsi í Vesturbænum um nóttina. Þar kom kona til dyra og kannaðist við bílinn og sagði að eiginmaður  sinn hefði verið á honum. Konan sagðist ekki vita hvort eiginmaður sinn væri heima en nokkru síðar kom maðurinn til dyra áberandi ölvaður. Hann neitaði að hafa ekið bílnum um kvöldið og neitaði einnig að gefa upp hver hafi verið ökumaður. Um væri að ræða fyrirtækisbíl sem margir hefðu haft aðgang að.

Daginn eftir kom konan á lögreglustöðina og sagðist hafa ekið bílnum þessa nótt. Nokkrum vikum síðar krafðist fyrirtækið bóta frá tryggingafélaginu vegna tjóns á bílnum en tryggingafélagið neitaði.  Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum hafnaði kröfunni einnig.

Fyrirtækið, skráður eigandi bílsins, höfðaði þá mál og krafðist bóta vegna tjónsins enda hefði tryggingafélagið ekki sannað, að maðurinn hefði ekið bílnum né að hann hafi verið ölvaður. Þá hefði fullyrðingu konunnar um að hafa ekið bílnum í umrætt skipti ekki verið hnekkt.  

Tryggingafélagið taldi það vægast sagt ótrúverðugt að eiginkonan hefði komið á lögreglustöðina eftir hádegi daginn eftir og sagst sjálf hafa ekið bílnum. Við blasti að um væri að ræða samantekin ráð af hálfu hjónanna til þess að hafa vátryggingabætur af tryggingafélaginu á fölskum forsendum.

Þá benti félagið á, að eiginkonan hefði beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta varðandi bætur vegna tjónsins, sem einn eigenda, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrirtækisins, sem átti bílinn.

Dómurinn sýknaði tryggingafélagið af kröfu bíleigandans. Segir í niðurstöðu dómsins, að framburður konunnar og framkoma hennar fyrir dómi væru ekki trúverðug og var framburðinum hafnað. Þá væru sterkar líkur fyrir því að maðurinn hafi verið ökumaður bílsins og orsakatengsl séu á milli ölvunar hans og skemmda á bílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert