Erró áritar bækur og plaköt

Erró í Hafnarhúsinu.
Erró í Hafnarhúsinu. mbl.is/Sverrir

Listamaðurinn Erró er væntanlegur til landsins og mun árita bókina ERRÓ Í TÍMARÖÐ – líf hans og list  á laugardag kl. 14 í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Með hverri seldri bók fylgir áritað og númerað grafíkverk sem hægt er að fella inn í bókina. Um tvenns konar grafíkverk er að ræða en einungis 100 eintök eru gerð af hvoru verkinu fyrir sig.

Í för með Erró er höfundur bókarinnar Danielle Kvaran listfræðingur, sem búsett er í Noregi, og mun hún einnig árita bókina, sem er gefin út af Forlaginu í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007.

Erró og Danielle Kvaran munu einnig árita bókina og gefa áðurnefnd grafíkverk í bókabúð Máls og menningar að Laugavegi 18, klukkan 11 sama dag.

Í tilefni af komu Errós hingað til lands fer fram afhending úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur en sjóðinn stofnaði Erró til minningar um Guðmundu móðursystur sína frá Miðengi. Stofnfé sjóðsins er andvirði íbúðar að Freyjugötu 34 sem Guðmunda arfleiddi Erró að.

Sjóðnum er ætlað að efla og styrkja listsköpun kvenna sem þykja skara fram úr og hvetja þær til frekari dáða. Árleg úthlutun fer fram úr sjóðnum og er þessi sú níunda í röðinni. Þær konur sem áður hafa hlotið viðurkenningu úr sjóðnum eru Ólöf Nordal, Finna Birna Steinsson, Katrín Sigurðardóttir, Gabríela Friðriksdóttir, Sara Björnsdóttir, Þóra Þórsdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir og Hekla Dögg Jónsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert