Töluvert fannfergi er á Selfossi og í nærsveitum eftir mikla ofankomu síðustu tvo sólarhringa. Helstu götur á Selfossi hafa verið ruddar en gengur hægt þar sem víða þarf að moka snjónum á vörubíla til að koma honum í burtu.
Að vanda taka hinir yngri snjónum fagnandi og hafa dregið fram þotur, sleða og önnur leiktæki sem ætluð er til skemmtunar í snjó. Helsti gallinn er að flatlendið býður ekki upp á mikið rennsli og því gott að hafa góðan dráttarklár á sínum snærum.
Þá fáu daga ársins sem jörð er snævi þakin á Selfossi, safnast ungmennin gjarnan saman á þeim eina staða innan bæjarmarkanna þar sem hægt er að renna sér á til þess gerðum leiktækjum. Af heimamönnum er staðurinn ýmist nefndur Stóri-hóll eða Fjallið eina.
Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri, segir að í augum aðfluttra, sem búið hafa í nágrenni alvöru fjalla, sé hóllinn þó hvorki ýkja stór né til þess bær að kennast við fjöll. Segir Kristján að í huga Austfirðingsins, sem hafi verð búsettur við rætur eyfirskra fjalla, komi orðið þúfa frekar í hugann en að líkindum sé þetta gamall malarbingur sem gleymst hafi að jafna út við mannvirkjagerð. Hóllinn sé þó ágætur til snjóleikja.
Spá Veðurstofunnar bendir til að enn eigi eftir að bæta í snjóalög sunnanlands næstu daga og að líkindum verður sá snjór þungur og rakur og því tilvalinn til snjókalla- og snjóhúsagerðar.