Öryrkjabandalagið missir máttinn

Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, segir átökin innan Öryrkjabandalags Íslands, ÖBÍ, draga máttinn úr samtökunum. „Ef deilurnar verða ekki leystar mjög fljótt gæti það endað með því að Öryrkjabandalagið lamist," segir Guðjón. Óvissa ríkir um forystu ÖBÍ eftir að Sigursteinn Másson sagði af sér formennsku í bandalaginu síðastliðinn föstudag.

Sigursteinn kvaðst rúinn trausti eftir að tillaga meirihluta framkvæmdastjórnar samtakanna um skipan fulltrúa í stjórn hússjóðs var felld á aukafundi aðalstjórnar. Tillaga varaformanns ÖBÍ, Emils Thoroddsens, um stjórnarmenn í hússjóðnum var hins vegar samþykkt."

„Ég veit að það sjá margir mikið eftir Sigursteini. Eftir að hann varð formaður hafa öll samskipti Öryrkjabandalagsins við hið opinbera verið betri en áður. Það var farið að bjóða okkur setu í nefndum og stjórnum. Með því að setja allt upp í loft hefur Öryrkjabandalagið sennilega ekki getað gert stjórnarflokkunum meiri greiða. Nú sjá þeir sundrungu og hugsa sem svo að þeir geti beðið með allt," segir Guðjón.

Hann óttast að starfið sem skipti öryrkja öllu máli sé í hættu. „Öryrkjabandalagið hefur mörg mál til umfjöllunar. Það þarf að ganga frá tillögum um útdeilingu 2 milljarða framlags ríkisstjórnarinnar fyrir mánaðamót. Starf í örorkumatsnefnd kann líka að vera í hættu nái menn ekki saman. Öryrkjabandalagið á að verasameinað og vinna fyrir öryrkja en ekki passa stólana fyrir ákveðna menn."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert