Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að hann hefði greint Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, frá því að hann væri ósammála því mati, sem lá til grundvallar þegar Árni ákvað að veita Þorsteini Davíðssyni embætti héraðsdómara nýlega.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Lúðvík í upphafi þingfundar um álit hans á dómaraskipuninni í ljósi ósvífinna yfirlýsinga fjármálaráðherra í Kastljósi í gærkvöldi, eins og Siv orðaði það. Vísaði hún til þeirra ummæla Árna að það væri dómnefnd um hæfi umsækjenda að kenna ef dregið hefði úr tiltrú almennings á dómskerfið og nefndin hefði ekki kunnað eigin reglur.
Lúðvík sagði að þeir Árni hefðu átt opnar hreinskiptar umræður um málið en það væri eðli núverandi stjórnarsamstarfs að hægt væri að eiga hreinskiptar umræður um mál.
Þá spurði Siv Lúðvík hvort hann hygðist beita sér fyrir því að frumvarp hans um skipun dómara, sem liggur fyrir þinginu, verði afgreitt. Lúðvík sagðist að sjálfsögðu myndu gera það, en um er að ræða frumvarp um skipun dómara í Hæstarétt.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagði, að þingmenn stjórnarflokkanna bæru ábyrgð á þeim ráðherrum, sem sætu í embætti og stjórnarathöfnum þeirra. Sagði hann forvitnilegt að vita hvort fjármálaráðherra nyti almenns trausts þingmanna í ljósi yfirlýsingar Lúðvíks. Sagðist Árni Þór telja að ákvörðun fjármálaráðherrans væri ólögleg.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að í lögum um dómstóla væri hvergi tekið fram að ráðherrum bæri að fara eftir niðurstöðu nefndar, sem fjallar um hæfi umsækjenda. Þá væri niðurstaða nefndarinnar ekki bindandi fyrir ráðherrann. Lögin væru alveg skýr en menn gætu haft skoðanir á því hvort það ætti að breyta þeim.