Varað við nýrri tegund fjársvikabréfa

Embætti ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér viðvörun vegna nýrrar tegundar fjársvikabréfa, svokallaðra Nígeríubréfa, sem berast í tölvupósti. Í bréfi þessu, sem borist hefur nokkrum hér á landi, segist sendandinn vera endurskoðandi við Prime Bank í London. Hann segist leita eftir samstarfi við heiðarlegan aðila í því skyni að flytja úr landi rúmar 8,5 milljónir sterlingspunda gegn því að upphæðinni verði skipt til helminga milli hans og þess sem aðstoðar.

Ríkislögreglustjóri segir að þetta sé enn ein tegundin af tölvupósti. sem sendur sé  út í þeim tilgangi að svíkja fé út úr auðtrúa fólki.

Svokölluð Nígeríubréf innihalda gylliboð sem ekki eru á rökum reist. Að baki þeim standa óprúttnir aðilar sem svífast einskis. Ríkislögreglustjóri segir, að því miður hafi margir Íslendingar látið glepjast og fjárhagslegt tjón þeirra sé umtalsvert.

Svikahrapparnir beita ýmsum brögðum og velþekkt er brella þeirra sem þykjast vera fulltrúar erlendra ríkisstjórna. Gjarnan eru sendar tilkynningar þar sem fólki er lofað ótrúlegustu hlutum. Dæmi um það er að upplýsa fólk um að þess bíði vænn arfur. Svikahrapparnir notast einkum við tölvupóst en talið er að 1% viðtakenda láti blekkjast. Til að koma málum af stað er viðkomandi fenginn til að leggja fram ákveðna upphæð sem vindur stöðugt upp á sig. Sífellt þarf að bæta við upphæðina svo féð geti komist í réttar hendur. Stöðugt eru færðar fram nýjar afsakanir til að hafa enn meira fé af hinum hrekklausu.

Einnig er algengt að „happdrættisvinningar” séu nýttir í blekkingarskyni. Viðtakandi fær þá tilkynningu um að hann hafi hlotið vinning. Síðar er viðtakanda greint frá því að hann þurfi að leggja fram tiltekna upphæð áður en vinningurinn verði greiddur út. Málið vindur síðan upp á sig og stöðugt er leitast við að hafa meira fé af fórnarlambinu.

Upplýsingar um fjársvik á netinu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert