Fíkniefnahundar lögreglu og tollstjóra hafa verið á námskeiði ásamt þjálfurum sínum undanfarið, og liður í því var sviðsett leit í Leifsstöð í dag þar sem hundarnir fundu fíkniefni sem komið hafði verið fyrir á lögreglumönnum - og einum sjónvarpsmanni.
Námskeiðið er haldið á vegum Lögregluskóla ríkisins í samstarfi við ríkislögreglustjórann og tollstjórann á Suðurnesjum.
Á námskeiðinu er hundunum kennt að leita á fólki, en þeir hafa þegar fengið þjálfun í leit í farangri, bílum, skipum og fleiri stöðum. Eftir þrjá mánuði gangast hundarnir svo undir próf, og standist þeir það fara þeir í vinnu.