Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að eðlilegt væri að kanna til hlítar hvort hægt sé að sameina byggingu nýrrar lögreglustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og nýs fangelsis, sem yrði þá minna í sniðum en áður var áformað. Jafnframt yrði aukin áhersla lögð á uppbyggingu fangelsisins á Litla-Hrauni.
Áform hafa verið um að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði í Reykjavík. Björn sagði, að komið hefði í ljós, að lóðamál þess fangelsis væru í einhverju uppnámi af hálfu skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar. Þetta hefði komið dómsmálaráðuneytinu í opna skjöldu en verið væri að skoða hvort þar sé rými til að reisa fangelsi miðað við önnur byggingaráform á Hólmsheiði.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði spurt Björn á Alþingi hvort stórverkefnið í löggæslumálum ætti að koma á undan, uppbygging nýs fangelsis eða nýrrar lögreglustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Hún sagði ljóst að áhugi væri á því í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur að ný lögreglustöð rísi þar.
Björn sagði m.a. að samningar væru að takast á milli ráðuneyta og sveitarstjórnar Árborgar um sölu á landi frá Litla-Hrauni en áform væru um að reisa sérstakt móttökuhús við fangelsið fyrir andvirði landsins og bæta aðstöðuna þar.