Héraðsdómur Reykjavíkur hefur veitt efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra heimild til að gera húsleit hjá skattrannsóknarstjóra til að sækja skjöl sem tengjast meintum skattalagabrotum Óskars Magnússonar, fyrrverandi stjórnarformanni Baugs.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknastjóri, staðfesti að ágreiningur væri við ríkislögreglustjóraembættið um meðferð gagna og sá ágreiningur væri fyrir dómstólum. Fram kom á fréttavef DV að úrskurðurinn hefði verið kærður til Hæstaréttar.
Harðar deildur voru á síðasta ári milli embættis ríkislögreglustjóra og ríkisskattstjóra um það hvort lögreglan skyldi hafa aðgang að gögnum um skattskil Óskars. Ríkislögreglustjóri óskaði í byrjun síðasta árs eftir upplýsingum um afgreiðslu á meintum skattsvikabrotum nokkurra einstaklinga tengdum Baugi.
Fram kom, að tilefni beiðninnar hafi einkum verið að leiða í ljós hvort tilefni væri til að hefja rannsókn opinbers máls vegna persónulegra skattskila einstaklings, sem hafði samkvæmt upplýsingum í skýrslu skattrannsóknarstjóra dregið undan u.þ.b. 94 milljónir króna af launatekjum sem greiddar voru honum árin 1998–2000, auk tekna að fjárhæð á þriðja tug milljóna sem greiddar voru einkahlutafélagi hans.