Hlutfallsleg fækkun í þjóðkirkjunni

Hafnarfjarðarkirkja.
Hafnarfjarðarkirkja.

Sóknarbörnum í þjóðkirkjunni hefur fækkað hlutfallslega á undanförnum árum. 1. desember 2007 voru 80,7% landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna en árið 1990 var þetta hlutfall 92,6%. Á sama tíma hækkaði hlutfall íbúa í fríkirkjusöfnuðunum þremur: Fríkirkjunni í Reykjavík, Óháða söfnuðinum og Fríkirkjunni í Hafnarfirði úr 3,2% í 4,9%.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Hagstofunnar. Skráðum trúfélögum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum; skráð trúfélög utan þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða eru nú 26 en voru 10 árið 1990. Þessum trúfélögum tilheyra 5,4% íbúa samanborið við 2,3% árið 1990.

Flest trúfélög utan Þjóðkirkjunnar og fríkirkjusafnaðanna eru smá og einungis þrjú telja fleiri en 1.000 meðlimi. Kaþólska kirkjan er langfjölmennast þeirra og hefur sóknabörnum hennar fjölgað meira en þrefalt frá árinu 1990 (2396 samanborið við 7977 árið 2007). Hvítasunnusöfnuðurinn er næst stærsta trúfélagið utan þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða. Þar eru meðlimir nú 1963 samanborið við 898 árið 1990. 

Til óskráðra trúfélaga og með ótilgreind trúarbrögð heyrðu 6,2% þjóðarinnar samanborið við 0,6% árið 1990. Hátt hlutfall þessara einstaklinga eru erlendir ríkisborgarar sem búið hafa hér á landi í stuttan tíma og eiga í sumum tilvikum eftir að skrá sig í trúfélag. Utan trúfélaga voru 2,8% samanborið við 1,3% árið 1990.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka