Ísland axli ábyrgð á eigin öryggi

AWACS ratsjárflugvél á varnaræfingu hér á landi á síðasta ári.
AWACS ratsjárflugvél á varnaræfingu hér á landi á síðasta ári.

„Sá tími er liðinn, að Ísland þurfi eng­um pen­ing­um að verja til varna sinna og sá tími er kom­inn, að Ísland axli sjálft ábyrgð á eig­in ör­yggi," sagði Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir, ut­an­rík­is­ráðherra, þegar hún mælti fyr­ir frum­varpi um varn­ar­mál á Alþingi í dag.

Ingi­björg Sól­rún sagði að frum­varpið væri sögu­legt í sjálfu sér og rök­rétt fram­hald þeirra tíma­móta sem urðu með brott­för varn­ar­liðsins. Um væri að ræða lög, sem muni gilda um stjórn­sýslu varn­ar­mála á ís­lensku yf­ir­ráðasvæði og um sam­starf við aðrar þjóðir um ör­ygg­is- og varn­ar­mál.

Hún sagði m.a. að með frum­varp­inu væri reist­ur laga­leg­ur eld­vegg­ur milli varn­artengdra verk­efna og verk­efna á sviði lög­gæslu og al­manna­varna. Frum­varpið úti­lokaði þó ekki að stofnað verði til sam­starfs milli stofn­ana á sviði varn­ar­mála ann­ar­s­veg­ar og lög­gæslu hins­veg­ar.

Björn Bjarna­son, dóms­málaráðherra, sagði í umræðu um frum­varpið, að Alþingi hefði aldrei fyrr fjallað um varn­ar­mál á þeim grunni, sem hér væri kynnt­ur. Með frum­varp­inu væri viður­kennt, að Íslend­ing­ar hafi hernaðarlegra ör­ygg­is­hags­muna að gæta og þeir séu reiðubún­ir að leggja nokkuð af mörk­um í því skyni, án þess þó að koma á fót ís­lensk­um her.

Björn vísaði til þess, að í frum­varp­inu væri sér­stak­lega tekið fram, að lög­in taki ekki til verk­efna stjórn­valda, sem séu borg­ara­leg í eðli sínu, svo sem lög­gæslu og al­manna­varna. Frum­varp­inu sé með öðrum orðum ekki ætlað að breyta neinu að því er varðar störf lög­reglu eða land­helg­is­gæslu eða bein sam­skipti þess­ara mik­il­vægu ör­ygg­is­stofn­ana við er­lenda sam­starfsaðila.

„Ég tel, að í frum­varp­inu fel­ist ný tæki­færi fyr­ir þess­ar stofn­an­ir til að tengj­ast bet­ur sam­starfsneti NATO-ríkj­anna á því sviði, sem snert­ir borg­ara­lega þætti ör­ygg­is­mál­anna," sagði Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert