Íslendingar treysta kennurum betur en öðrum starfstéttum samkvæmt alþjóðlegri könnun sem Gallup International gerði á vegum Alþjóða efnahagsstofnunarinnar, World Econonomic Forum.
Könnunin var gerð á tímabilinu október-desember 2007 og tóku 61 þúsund manns í 60 löndum þátt í henni.
Þátttakendur í könnuninni voru spurðir hvaða starfstéttum þeir treystu mest og komu kennarar best út hjá íslenskum þátttakendum en trúarleiðtogar verst.
Kennarar fengu 46% atkvæða en trúarleiðtogar aðeins 4%.
Á eftir kennurum er verkalýðsforingjum treyst best með 25% og fylgja blaðamenn og lögregluforingjar í kjölfarið með 18%.
Stjórnmálamenn fengu 9% atkvæða og leiðtogar úr viðskiptalífinu 12%.
Fleiri þjóðir sögðust treysta kennurum betur en öðrum. 89% Íra, 78% Belga og 67% Þjóðverja sem tóku þátt í könnunni sögðust treysta kennurum best.