Lyfjamarkaðurinn virkar ekki sem skyldi

Arnaldur Halldórsson

Heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, segir að ljóst sé að íslenskur lyfjamarkaður virki ekki sem skyldi. Þetta kom fram í máli ráðherrans á fundi Samtaka verslunar og þjónustu um íslenska lyfjamarkaðinn í morgun. „Lyfjaverð er hærra hér en á Norðurlöndunum og langt yfir meðalverði lyfja í ríkjum Evrópusambandsins," sagði Guðlaugur.

Kvað hann smæð markaðarins aðalorsök þess að takmarkaður áhugi er á innflutningi ódýrra samheitalyfja til landsins. Tæknilegar hindranir væru í vegi fyrir opnun hans, svo sem kröfur um íslenska merkimiða og fylgiseðla, sem séu sjálfsögð og eðlileg krafa neytenda, en virki sem tæknileg hindrun.

„Þessi krafa hefur leitt til þess að erfitt er að veita sjúklingum aðgang að dýrum lyfjum sem seljast í litlum mæli. Uppfylla má þessar kröfur með annarri nálgun, svo sem útprentuðum fylgiseðlum, og um leið bæta þjónustuna með stærra letri og fleiri atriðum."

Sagði ráðherra skort á gagnsæi verðlagningar einna helst verið talinn orsök skorts á samkeppni á lyfjamarkaði og að mati Samkeppniseftirlitsins ríki einokun og fákeppni á lyfjamarkaðnum bæði í heildsölu og smásölu.

Yfirlýst markmið ráðherrans eru tvíþætt

  1. Lækkun lyfjakostnaðar ríkisins.
  2. Lækkun lyfjaverðs til almennings um leið og fyllstu gæða og öryggiskrafna er gætt.

Gerði hann grein fyrir ellefu aðgerðum sem unnið er að í heilbrigðisráðuneytinu og stofnunum þess um opnun lyfjamarkaðarins.

  1. Lyfjastofnun hefur í samstarfi við innlenda og erlenda aðila unnið áætlun um fjölgun lyfja á markaði.
  2. Stofnunin hefur heimild til að leita leiða til markaðssetningar lyfja sem erfitt hefur reynsst að útvega. Þá mun Lyfjastofnun geta samþykkt að í undantekningartilvikum megi fylgiseðlar með lyfjum verða á ensku og norðurlandamálunum að undanskildum finnsku og grænlensku. Um leið verði upplýsingarnar til á íslensku á heimasíðu lyfjastofnunar til útprentunar.
  3. Breytingar á lögum til að efla samkeppni og bæta þjónustu. M.a. að póstverslun með lyf verði heimilið, sem gæti lækkað verð og aukið samkeppni á markaðnum.
  4. Sala nikótínlyfja utan apóteka verði heimiluð. Lýðheilsufræðileg rök séu fyrir því að slík lyf skuli vera jafnaðgengileg og tóbak. Sömu leiðis flúorlyf sem skyldu vera jafnaðgengileg og gos og sælgæti til þess að stuðla að tannvernd.
  5. Aukið gegnsæi verðlagningar.
  6. Gefnir verði út bindandi listar um notkun lyfja á heilbrigðisstofnunum.
  7. Eftirlit verði styrkt með því að lengja varðveislutíma gagna í gagnagrunni Landlæknis.
  8. Einföldun á stjórnsýslu, m.a. með færslu á leyfisveitingum frá ráðuneyti til Lyfjastofnunar.
  9. Innleiðingu rafrænna lyfseðla, sem ásamt póstverslun munu væntanlega efla samkeppni á lyfjamarkaði.
  10. Ráðherra hefur formlega falið Lyfjastofnun að hefja samræður og samstarf um útboð og innkaup lyfja. Með þessu er átt við að stofnanir reyni að samræma sem best lyfjalista sína og bjóða kaup þeirra út saman.
  11. Tryggingastofnun Ríkisins vinnur í samvinnu við Landlækni að gerð lista yfir þau lyf sem hægt er að mæla með að séu notuð út frá faglegu og fjárhagslegu sjónarmiði.

Ekki alltaf slæmt að lyfjakostnaður aukist

Þorvaldur Árnason lyfsali varaði á fundinum við umræðu um lyfjakostnað, því ekki væri alltaf slæmt að hann ykist. Hækkun lyfjakostnaðar getur lækkað kostnað í heilbrigðiskerfinu um meira en því sem hækkuninni nemur. Nefndi hann sem dæmi að magalyf væru í dag notuð í miklum mæli, sem þýddi aukinn lyfjakostnað, en áður en þau komu til hafi þurft að gera skurðaðgerðir við magasárum, sem voru enn kostnaðarsamari.

Kynnti hann fimm tillögur vinnuhóps lyfsala hjá Samtökum verslunar og þjónustu, að úrbótum á íslenska lyfjamarkaðnum. Voru tillögurnar þær að byggja inn hvata í smásöluálagningu til að auka sölu á ódýrari lyfjum. Að efla skyldi lyfjaskömmtun.Nýta betur þekkingu lyfjafræðinga og efla nám lyfjatækna. Hvetja til aukins innflutnings samheitalyfja og fjölga útboðum hjá ríkinu. Lækka virðisaukaskatt á lyf.

Sagði Þorvaldur að eitthvað væri að kerfi þar sem virðisaukaskattur á lyf væri meira en þrisvar sinnum hærri (24,5%) á lyfjum en á gosdrykkjum í matvörubúðum (7%)

Þá lýsti Pétur H. Blöndal, alþingismaður,  hugmyndum nefndar sem skipuð var af heilbrigðisráðherra um úrbætur og einfaldanir á kerfi því sem lýtur að greiðsluþátttöku almennings í lyfjakostnaði sínu. Sagði hann núverandi kerfi allt of flókið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert