Geir: Mikilvægt að allir haldi ró sinni

Rætt var um efnahagsmál á Alþingi í dag.
Rætt var um efnahagsmál á Alþingi í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði mikilvægt að allir haldi ró sinni við núverandi aðstæður í efnahagsmálum og umrót á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og það ætti við um þingmenn, aðila vinnumarkaðar og aðila í fjármálaheiminum.

„Það eru nýjar aðstæður, það er erfitt um lánsfjáröflun miðað við það sem áður var og laust fé liggur ekki á lausu, ef svo mætti segja. Þess vegna var ákvörðun Seðlabankans fyrr í vikunni að breyta reglum um endurhverf verðbréfaviðskipti og auka veðhæfismöguleika skuldabréfa mjög mikilvæg og er áreiðanlega ein af stæðum þess að einn af stóru bönkunum okkar samkvæmt fréttum í morgun, hætti við að útvega sér stórt lán á alþjóðamörkuðum, að minnsta kosti í bili," sagði Geir.

Morgunblaðið sagði frá því í dag að Glitnir hefði hætt við  fyrirhugað skuldabréfaútboð.

Geir sagði að ný þjóðhagsspá undirstrikaði styrk íslenska hagkerfisins en leiddi jafnframt í ljós óvissu, sem nú væri, einkum vegna hræringa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, fór fram á umræðuna og sagði óveðursský hrannast upp í íslenskum efnahagsmálum og sá himinn, sem til þessa hefði verið heiður, væri nú þungbúinn. Óvissa þjakaði fjármálaheiminn og lánsfé væri af skornum skammti. Sagði Guðni að ríkisstjórnin sæti aðgerðarlaus en gæti með markvissum aðgerðum afstýrt efnahagslegu áfalli.

Geir sagði að nákvæmlega væri með þessum málum fylgst af hálfu ríkisstjórnar og Seðlabankans og fleiri aðila.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði að mikill viðskiptahalli á undanförnum árum hefði verið ávísun á langvarandi verðbólgu eins og komið hefði í ljós.

Hún sagði að ekkert benti til annars en íslensku bankanna stæðust fyllilega samanburð við aðrar fjármálastofnanir á Norðurlöndunum. Fjármálastofnanir væru að ganga í gegnum tímabundna erfiðleika og mikilvægt væri að allir héldu ró sinni og vönduðu sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert