Tjáningarfrelsið meðal dýrmætustu mannréttinda

Blaðamannafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun vegna dóma, sem fallið hafa nýlega og þrengja að mati félagsins mjög að tjáningarfrelsi og byggja á mjög þröngri túlkun dómstóla á því sem getur kallast eðlileg umræða í lýðræðisþjóðfélagi. Segir félagið m.a. að frelsi til að tala og rita það sem mönnum býr í brjósti teljist til dýrmætustu mannréttinda.

Í ályktuninni segir, að skoðanafrelsi, upplýsingafrelsi, málfrelsi og frelsi til að miðla hugmyndum séu forsendur til að nútíma lýðræðisþjóðfélag fái þrifist. Án tjáningarfrelsis sé engin leið að tryggja að annarra mannréttinda sé gætt. Því sé tjáningarfrelsi forsenda þess að almennt lýðfrelsi ríki.

„Undanfarið hafa fallið dómar sem þrengja mjög að tjáningarfrelsi og byggja á mjög þröngri túlkun dómstóla á því sem getur kallast eðlileg umræða í lýðræðisþjóðfélagi. Í þessum dómum birtist mjög neikvæð sýn á tjáningarfrelsi og þeim sjónarmiðum sem að baki því liggja.

Blaðamannafélag Íslands varar við þessari þróun og brýnir dómstóla landsins að kynna sér alþjóðlega dómaframkvæmd á því sviði. Einnig er sérsök ástæða til þess að hvetja dómendur til að rifja upp dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar frá árinu 1992 (47/1991/299/370).  Þar vekur Mannréttindadómstólinn athygli á því að tjáningarfrelsi "... er ein helsta grundvallarstoð lýðræðisþjóðfélags; ... nær það ekki einungis til „vitneskju" eða „hugmynda" sem tekið er við með velþóknun eða taldar eru meinlausar eða litlu skipta, heldur einnig til þeirra sem valda sárindum, hneykslun eða ólgu. Það tjáningarfrelsi sem 10. greinin verndar er háð nokkrum undantekningum, sem þó ber að skýra þröngt, og sýna verður fram á nauðsyn takmarkana með sannfærandi hætti."  

Í dóminum yfir Þorgeiri vék dómstólinn einnig að hlutverki fjölmiðla með eftirfarandi orðum: „Það er ekki einungis hlutverk þeirra að miðla slíkri vitneskju og hugmyndum; almenningur á einnig rétt á að taka við þeim. Að öðrum kosti gætu blöðin ekki rækt hið ómissandi hlutverk sitt sem „varðhundar almennings,"" segir í ályktun Blaðamannafélagsins.

Blaðamannafélag Íslands telur nauðsynlegt að vekja athygli á þessari niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og hvetur dómstóla landsins til að kynna sér hana til hlítar áður en þeir draga allt bit og líf úr þeirri umræðu sem hverri þjóð er nauðsynlegt að eiga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert