60 tonn af lyfjum á haugana

Sorpeyðingarstöð Suðurnesja tók í fyrra á móti 62 tonnum af lyfjum til eyðingar. Apótek létu eyða alls fimm tonnum af lyfjum. Aron Jóhannsson, umhverfisverkfræðingur hjá Sorpeyðingarstöðinni, segir mest af lyfjunum koma frá lyfjaframleiðendum og lyfjadreifingarfyrirtækjum. „Við fáum stundum heilu brettin af lyfjum sem á að eyða.“

Hjördís Árnadóttir, talsmaður Actavis, segir meginástæður fyrir eyðingu lyfja fyrirtækisins þrjár. „Það þarf að eyða lyfi ef eitthvað kemur upp á í framleiðslunni sem verður til þess að það uppfylli ekki gæðakröfur. Þetta gerist mjög sjaldan,“ tekur Hjördís fram.

Í öðru lagi getur þurft að eyða hluta af svokallaðri framleiðslulotu ef lyfið sem eftir er er orðið of gamalt, að sögn Hjördísar.

Hún segir að lyfjum sem aldrei séu hugsuð til sölu sé einnig eytt. „Meginþróunarstöð félagsins er hér á Íslandi og þar framleiðum við lyf sem aldrei eru hugsuð til sölu. Þau þarf að framleiða í ákveðnum lotustærðum. Þetta er bara hluti af miklum kostnaði við þróun á nýjum samheitalyfjum.“

Efnamóttakan í Reykjavík tók á móti tæpum 9 tonnum af lyfjum í fyrra, þar af um 3 tonnum frá apótekum. „Afgangurinn var aðallega lyf frá sjúkrahúsum og framleiðendum. Við sendum svo lyfin áfram til Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja,“ segir Jón H. Steingrímsson framkvæmdastjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert