Redda nuddolíu fyrir Coverdale

Whitesnake á tónleikum.
Whitesnake á tónleikum.

Nú gefst Whitesnake-aðdáendum og öðrum rokkhausum kostur á að skella sér á Whitesnake-tónleika en hljómsveitin spilar í Laugardalshöll þann 10. júní næstkomandi.

Whitesnake spilaði síðast hérlendis árið 1990 og fyllti þá Reiðhöllina tvisvar sinnum og þar komust færri að en vildu. Frægt er orðið að söngvari sveitarinnar, David Coverdale, var veikur seinna kvöldið og því var Pétur Kristjánsson heitinn fenginn til að leysa hann af, og gerði það með glæsibrag.

Björgvin Þór Rúnarsson, annar eigandi viðburða- og útgáfufyrirtækisins 2B Company sem skipuleggur tónleikana, segir að einungis séu 5500 miðar í boði. „Þetta er risaband sem er að koma hingað og það er augljóst að fólk verður að hafa hraðann á ef það ætlar að ná sér í miða,“ segir Björgvin.

Whitesnake hefur verið á ferðinni síðan 2002 og hefur selst upp á mettíma alls staðar þar sem sveitin hefur komið fram. Nýlega fréttist að þeir væru að fara í tónleikaferð með hljómsveitinni Def Leppard og spila þau bönd meðal annars saman á Wembley í sumarlok.

Óvíst hver hitar upp

Ekkert er gefið upp um upphitunarhljómsveit fyrir Whitesnake. „Við erum að skoða nokkur íslensk bönd en enn er ekkert ákveðið um hver verður þess heiðurs aðnjótandi.“

Þegar Björgvin er inntur eftir því hvort einhverjar furðulegar kröfur hafi borist frá rokkurunum, segir hann það furðulegasta vera nuddolíu. „Systir David Coverdale nuddar hann og teygir fyrir tónleika og þau báðu um að einhver sérstök nuddolía yrði á staðnum, og nú verðum við að fara að leita að henni. Þeir voru ekki með neinar sérkröfur um bara bláar mm-kúlur eða neitt þannig.“

Miðasala hefst í dag klukkan 10 á midi.is og í verslunum Skífunnar og BT úti á landi. Miðaverð í stúku er 7900 krónur en 5900 krónur í stæði. heida@24stundir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert