Sigurður Magnússon, bæjarstjóri Álftaness, segir Magnús Stephensen, íbúa í bænum, fara með rangfærslur varðandi deiliskipulag miðbæjar bæjarins í frétt í 24 stundum í gær.
Þar segir Magnús m.a. að vinningstillögu að deiliskipulagi bæjarins hafi verið breytt af bæjarstjórninni. Sigurður segir það vera eðlileg vinnubrögð að þematillögum sé breytt á einhvern hátt áður en þær verða að deiliskipulagi. Sú vinna hafi tekið 10 mánuði og breytingarnar hafi verið kynntar bæjarbúum á ýmsum stigum málsins.
Vegurinn þolir ekki byggðina
Þá segir Magnús að færa eigi Norðurnesveg í austurátt svo hægt sé að byggja meira. Sigurður segir að það hafi þurft að færa veginn þar sem hann sé gamall og liggi yfir mýri. Því sé hætta á að hann sígi við framkvæmdirnar. Magnús mótmælir því jafnframt að skv. tillögum muni 3.000 bílar keyra framhjá Álftanesskóla á sólarhring, eftir nýjum vegi. „Ef Skólavegurinn tekur ekki við bílunum gera það einhverjir aðrir vegir sem liggja að skólanum enda er hann með byggð á þrjá vegu,“ segir Sigurður.
Þá gagnrýnir Magnús að byggja eigi bensínstöð á Álftanesi þar sem átta bensínstöðvar séu í 6 km radíus frá miðbænum. „Við erum að byggja upp miðbæ með þeirri þjónustu sem fólk vill hafa nálægt sér, s.s. matvörubúð, kaffihúsi og bensínstöð. Að sjálfsögðu er þessi þjónusta í nágrannabæjarfélögum en það er samkomulag í bæjarfélaginu um að byggja þetta upp,“ segir Sigurður. Hann segist ekki hafa orðið var við kurr í bæjarbúum heldur hafi könnun Capacent Gallup sýnt fram á að verulegur stuðningur væri við tillögurnar.
Áhrifin á margæsina umdeild
Sigurður hefur eftir Arnóri Þóri Sigfússyni dýravistfræðingi og starfsmanni Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, sem gerði umhverfisskýrslu fyrir bæinn, að vegurinn taki 1 ha af búsetusvæði margæsarinnar. Magnús segir að með áætlaðri byggð fari 5 ha af svæðinu. Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að þótt skerðing vegna vegarins nemi 1 ha sé það ekki ósennilegt að allt að 5 ha fari af búsvæði margæsarinnar, skv. núverandi skipulagi, vegna þess að hún forðist byggingar. Ráðgert er að þriggja hæða íbúðabyggð rísi meðfram veginum.
Í hnotskurn
Hvort breytingar á vinningstillögu að deiliskipulagi miðbæjarins hafi átt rétt á sér. Réttmæti þess að leggja Skólaveg, nýjan veg sem mun liggja framhjá Álftamýrarskóla. Um 3.000 bílar munu fara um hann á dag. Hversu marga hektara margæsir á Álftanesi munu missa af búsetusvæði sínu við breytingarnar.