Stórbruni varð á Sauðárkróki í nótt þegar eldur kom upp á efri hæð veitingahússins Kaffi Króks, sem stendur við Aðalgötu.
Tilkynning um brunann barst lögreglu um hálf eitt í nótt. Vegfarandi kom auga á reyk frá þaki hússins, sem var byggt 1887. Mikill eldur logaði í húsinu og var það ekki fyrr kallaður hafði verið út stór bíll með krabba sem náði að rjúfa þakið, að slökkviliðsmönnum tókst að ná tökum á eldinum. Hann hafði síðan verið að fullu slökktur rétt fyrir klukkan þrjú.
Húsið var mannlaust og er tjónið á húsinu mikið. Ekki stendur mikið eftir af efri hæð hússins og er sú neðri gjörónýt.
Eldsupptök eru ókunn en málið er til rannsóknar í rannsóknadeild lögreglunnar á Akureyri.
Fram kemur á Skagafjarðarvefnum, að um sé að ræða eitt sögufrægasta hús Skagafjarðar að ræða. Fulltrúi Tryggingarmiðstöðvarinnar, sem var á staðnum, hafi sagt að húsið væri vel tryggt og gert ráð fyrir að menn kæmu strax í bítið að meta tjónið.