EES-samningurinn: Ráðherra greinir á um fjárfestingar

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

 „Ég er mjög íhaldssamur varðandi allar breytingar sem snúa að möguleika á eignarhaldi útlendinga í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í 24 stundum á fimmtudaginn sagðist Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hafa skipað nefnd í því skyni að rýmka reglur um fjárfestingu erlendra aðila hér á landi, meðal annars í sjávarútvegi.

Einar segir skoðun sína og stefnu Sjálfstæðisflokksins vera óbreytta í þessum efnum. „Sjávarútvegurinn er mjög sérstök atvinnugrein og hér er um að ræða nýtingarrétt á okkar helstu auðlind. Við háðum okkar landhelgisstríð á sínum tíma til þess að fá óskoraðan rétt til nýtingar á okkar efnahagslögsögu. Og ég vil ekki að við glötum þeim árangri í einhverju fljótræði.“

Arnbjörg Sveinsdóttir, sjálfstæðiskona og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, tekur undir með Einari.

Ekki virðast þó allir sjálfstæðismenn hrifnir af stefnu flokksins í þessum efnum. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir þjóðerni ekki eiga að skipta máli þegar einstaklingar fjárfesta í sjávarútvegi.

„Ég held að sjávarútvegurinn líði fyrir það að fá ekki áhættufjármagn erlendis frá,“ segir Pétur. Fyrirtæki í sjávarútvegi þurfi að fá lán erlendis frá með veði í útgerðinni, sem þýði að ef þau geti ekki borgað lánið missi fyrirtækin útgerðina. „Menn eru oft miklu háðari lánardrottni sínum heldur en eiganda.“ Pétur segir þó mikilvægt að íslenska ríkið haldi lögsögu sinni yfir auðlindinni.

„Þetta er eitt af þeim efnum sem ágreiningur er um meðal ríkisstjórnarflokkanna,“ segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann segir mikilvægt að láta ekki „Evrópusambandsþrá Samfylkingarinnar“ ráða ferðinni í þessum mikilvæga málaflokki.

Í hnotskurn
Samkvæmt EES-samningnum er Íslendingum heimilt að beita höftum á fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi þrátt fyrir ákvæði samningsins um frjálsar fjárfestingar. Heimild sú gildir þó ekki um óbeinar fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka