„Þessar auglýsingar endurspegla vel brennandi áhuga [Helga] á málefnum aldraðra og ég fagna því,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra en Helgi Vilhjálmsson birti í gær opnuauglýsingar í dagblöðum, þar sem hann skorar á Jóhönnu að beita sér fyrir lagabreytingum sem geri lífeyrissjóðum kleift að fjárfesta fyrir hluta innkomu sinnar í húsnæði fyrir aldraða.
„Hann vill að lífeyrissjóðirnir byggi húsnæði fyrir eldri borgara en hann verður líka að líta á hina hlið málsins, sem er að lífeyrissjóðirnir hafa þá skyldu fyrst og fremst að tryggja lífeyrisþegum viðunandi lífeyri og þeir verða því alltaf að hafa í huga að hámarka ávöxtun sjóðanna,“ segir Jóhanna.
„Ef sjóðirnir eiga að koma inn í fjármögnun á húsnæðismálum aldraðra verða þeir að fá viðunandi raunávöxtun á sínu fjármagni og það má vel vera að eins og hlutabréfamarkaðurinn er núna sé það skynsamleg ákvörðun að fara þá fjárfestingarleið sem Helgi nefnir.