Hafnar orðrómi um fatakaup Framsóknarflokksins

„Ég tók við starfi framkvæmdastjóra um áramótin 2006-2007 og ég kannast ekki við þetta frá þeim tíma og ekki heldur frá tíð forvera míns, " segir Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, um orðróm um að forystumenn flokksins í Reykjavík hafi keypt sér föt á kostnað flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar, líkt og Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, segir að hafi gengið innan flokksins.

Í bréfi, merkt trúnaðarmál, sem Guðjón Ólafur sendi til flokksfélaga sinna í Reykjavík, dagsett 15. janúar síðastliðinn, talar hann um versnandi stöðu flokksins, sérstaklega í Reykjavík, og að nú þurfi „menn að taka höndum saman eigi að takast að rífa hann upp úr þeim djúpa öldudal sem hann er nú í." Þar segir jafnframt að misklíð meðal framsóknarmanna hafi leitt til áhugaleysis flokksmanna.

Guðjón víkur einnig að orðrómi sem hafi gengið innan Framsóknarflokksins um „að forystumenn okkar í borgarstjórn hafi fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 keypt sér föt fyrir hundruð þúsunda á kostnað flokksins".

„Mér finnst þetta sorglegt og ekki til að auka traust fólks á pólitísku starfi eða laða fólk til fylgis við stjórnmálaflokka þegar málflutningur og skeytasendingar eru með þessum hætti," segir Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið. „Ég ætla ekki að svara þessu á opinberum vettvangi því mér finnst það segja sína sögu að bréfritari kjósi ekki að afla sér upplýsinga, heldur setji málið fram með þessum hætti í bréfum í þúsunda tali," segir Björn Ingi.

Guðjón Ólafur Jónsson segist hafa sent bréfið út til að þakka fyrir þann stuðning sem hann hafi fengið á meðan hann var þingmaður flokksins og til að setja fram hugleiðingar um stöðu Framsóknarflokksins í Reykjavík „og ég held að það sé full ástæða til að ræða hana, það hafa margir haft samband og fagnað því að ég hafi sett þá umræðu í gang," segir Guðjón. Hann segist hafa sent bréfið út sem trúnaðarmál og treyst flokksmönnum til að fara með það sem slíkt. Varðandi hlutann um orðróm vegna fatakaupa „vildi ég vekja athygli á því að þetta væru hvimleiðar sögur, en það hafa einnig gengið sögur um mig og aðra," segir Guðjón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka