Landsvirkjun greiðir laun Arnarfells

Landsvirkjun greiddi í gær Arnarfelli, sem byggir Hrauna- og Ufsárveitur Kárahnjúkavirkjunar, framhjá Landsbankanum svo fyrirtækið gæti greitt starfsmönnum sínum laun, en margir þeirra höfðu ekki fengið greitt fyrir vinnu í desember. Alla jafna hefur Landsvirkjun lagt greiðslur til Arnarfells inn á reikning í Landsbankanum.

Arnarfell hefur undanfarið átt í viðræðum við Landsbankann og Lýsingu vegna bágrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Samkvæmt heimildum frysti Landsbankinn launasjóð fyrirtækisins.

„Okkur fannst sanngjarnt að starfsfólkið fengi sín laun á meðan þessar viðræður fara fram og því var brugðið á þetta ráð,“ segir Sigurður Arnalds, talsmaður Kárahnjúkavirkjunar.

Fyrir austan starfar nú lágmarksfjöldi starfsmanna hjá Arnarfelli. Þeir vinna helst við að halda í horfinu. Vinna við aðra verkþætti hefur legið niðri í rúma viku.

„Við þurfum að fara að skoða þessi mál mjög alvarlega í næstu viku, við getum ekki látið verkið bíða mikið lengur,“ segir Sigurður.

aegir@24stundir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert