„Við erum komnir upp í 65 sjúkraútköll á dag að jafnaði og sumir á vaktinni eru þannig að þeir hafa engan tíma til að æfa núna. Ef þeir eru settir á vissa sjúkrabíla eru þeir í útköllum allan daginn og hafa í raun engan tíma til að sinna slökkviliðshliðinni, að viðhalda kunnáttunni þar," segir Daði Þorsteinsson, sviðsstjóri greiningarsviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, SHS, um álagið í stéttinni.
„Þeir geta þá komið verr undirbúnir en æskilegt er í vissar tegundir af útköllum. Þá á ég meðal annars við útköll sem þarf sjaldan að fara í, á borð við í háhýsum og önnur slík flókin útköll. Ef þeir geta ekki æft þessa hluti geta liðið nokkur ár milli þess að þeir fái að æfa handtökin, og þá við raunveruleg útköll.“
Að sögn Daða var slegið met í desember í fjölda útkalla slökkvibifreiða, þau voru þá 278, alls 93 fleiri en í maí 2005, sem var áður metmánuðurinn. Útköllum sjúkrabifreiða hefur stöðugt fjölgað og var árið 2006 metár í því samhengi, þá var fjöldinn 22.884, en 19.200 árið 2001. Árið 2007 fer yfir 23.700 en yfirferð gagna er enn ólokið.
Þegar litið er yfir tölur um hlutfall viðbragðstíma sjúkrabíla sem voru innan 8 mínútna viðmiðunarmarka fyrir árið 2006 kemur í ljós að það er innan við 10% í Mosfellsbæ, um 40% á Seltjarnarnesi og rétt ríflega 70% í Reykjavík.