„Ég tek undir það að það þarf að auka gæðaeftirlit og gæðakröfur í skólunum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra um þá niðurstöðu stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og grunnskólunum, að gæðaeftirliti sé ábótavant í skólunum.
„Það er alveg ljóst og ég hef sagt það að mikilvægasta hlutverkið núna í ráðuneytinu er gæðaeftirlitið og það á að auka það á öllum stigum. Það höfum við verið að gera á rannsóknarstiginu og á framhaldsskólastiginu og þurfum að gera það á grunnskólastiginu.
Á þessu er einmitt meðal annars verið að taka í nýjum frumvörpum sem eru til meðferðar í þinginu, í grunnskólafrumvarpinu og framhaldsskólafrumvarpinu. Þetta er alveg í takt við það sem ég hef verið að segja.
Við erum að fjárfesta mjög mikið í kerfinu. Bæði sveitarfélögin og ríkið og allir sem koma að skólakerfinu hafa mikinn metnað til að fá sem mest út úr því þannig að við verðum á meðal fremstu þjóða í heimi varðandi menntun, nýsköpun og þekkingu. Þá þurfum við að hafa og koma upp öflugu eftirlitskerfi og það er hægt að gera með margvíslegum hætti.“