Reiddist þegar snjó var kastað í bílinn

Í Sandgerðishöfn.
Í Sandgerðishöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað karlmann, sem ákærður var fyrir að ráðast á 12 ára gamlan dreng eftir að snjóbolti lenti á nýlegum og dýrum bíl mannsins.

Þetta gerðist í Sandgerði í nóvember 2006. Maðurinn sagðist í yfirheyrslu hafa verið að aka draumabifreið sinni af Lexus-gerð, sem hann hafi verið búinn að leggja mikið á sig til að eignast, þegar högg kom á bílinn. Hann hafi grunað  stráka, sem þarna voru, um að hafa hent snjókögglum í bílinn. Hann sagðist hafa misst stjórn á sér, orðið snöggreiður og hlaupið á eftir einum strákanna í þeim tilgangi að fara með hann heim til foreldra hans og tilkynna þeim um þetta.

Drengurinn sagðist hafa reynt að flýja undan manninum  en dottið í snjóinn og maðurinn hafi sest á hann og byrjað að kýla hann aftan á hausinn. Hann hafi sett höndina fyrir og höggin hafi lent á handarbakinu. Maðurinn hafi síðan gripið aftan í úlpu hans og byrjað að ganga með hann í átt að bílnum. Þegar þeir voru komnir hálfa leið að bílnum hafi maðurinn slegið hann í magann, líklega þrjú högg, ekki mjög föst.

Maðurinn sagðist hafa tekið í öxl drengsins og hugsanlega hafi komið högg við það en hann neitaði því að hafa slegið drenginn eða kýlt hann.

Drengurinn meiddist á öðru handarbakinu og segir í ákæru að hann hafi fengið áverkana þegar hann bar hönd fyrir höfuð sér. Dómurinn segir sannað að maðurinn hafi elt drenginn uppi,  tekið hann með valdi og dregið hann með sér í átt að bíl sínum. Ekki sé hins vegar fullsannað að maðurinn hafi slegið drenginn í höfuðið og ekki sé útilokað að drengurinn hafi meitt sig á hendinni við að falla í jörðina þegar hann reyndi að komast undan manninum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert