Allt upp á borð varðandi REI

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sagði á blaðamannafundi í kvöld að nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur ætlaði að setja allt upp á borð varðandi Reykjavík Energy Invest, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, sem máli skipti.

Vilhjálmur sagði, að nú væri stýrihópur að störfum um málefni REY undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa VG. Sér þætti að sá hópur hefði ekki starfað nægilega rösklega en óskað yrði eftir því, að hópurinn skilaði sinni vinnu. Einnig verði málið til umræðu í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.

„Við munum setja allt upp á borð sem skiptir máli, um ferli þessa máls, um viðbrögð, ábendingar um réttarstöðu borgarstjórnar varðandi fyrirtæki, sem  borgin á stærstan hluta í," sagði Vilhjálmur.

Ólafur F. Magnússon, væntanlegur borgarstjóri, sagði að stýrihópurinn fái að ljúka sínu verki og nýr meirihluti ætli ekki að verða með yfirgang gagnvart þeim sem nú lenda í meirihluta. Þverpólitísk samstaða væri um það í borgarstjórn að orkulindir verði áfram í eigu almennings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert