Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar í Reykjavík segir fréttir af nýjum meirihluta í borginni vera mikil tíðindi, og verst fyrir sjálfa Reykvíkinga. Hún segir stjórnarkreppu ríkja í Reykjavík.
„Mér finnst þessi meirihluti byggður á mjög veikum grunni þar sem Ólafur hefur engan varamann, það liggur fyrir að hvorki hans varamaður né annar varamaður styðja þennan meirihluta."
Björk segir engan ágreining hafa verið uppi innan meirihlutans og að Ólafur hafi ekki lagt fram neinar sérstakar kröfur sem orðið hefðu til þess að slitnaði upp úr samstarfinu. Hún sagði Ólaf vera nýkominn aftur til starfa í borgarstjórn og að hann hafi lítið mætt á fundi meirihlutans til að leggja til málanna.
Þá segir Björk að hún hafi fyrst heyrt tíðindin í fjölmiðlum í morgun og að hún hafi ekki lagt trúnað á þau frekar en aðrir í hennar hópi fyrr en á reyndi.