Dagur: Óvanur því að samstarfsmenn segi ekki satt

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, sagði við fréttamenn í Ráðhúsinu nú undir kvöld, að Ólafur F. Magnússon hefði tilkynnt sér það 20 mínútum fyrir 7 í kvöld að hann væri búinn að mynda nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.

Dagur sagði að hann ætti því ekki að venjast, að fólk,  sem hann ætti í dagslegum samskiptum við og reyndi að styðja og hann þæði stuðning af, segi honum ekki satt og geri eitthvað sem sé óútskýranlegt út frá fyrri samskiptum.

Hann sagði að þeir Ólafur hefðu verið í símasambandi sex sinnum í dag þar sem Ólafur hefði sagt sér að sjálfstæðismenn hefðu boðið honum gull og græna skóga og þar á meðal borgarstjórastólinn, sem þeir hefðu hlegið að saman. Ólafur hefði síðan sagt sér, að hann þyldi ekki annan svona dag og ætlaði að tilkynna sjálfstæðismönnum í eitt skipti fyrir öll að þetta gengi ekki og koma síðan á meirihlutafund. Hann hefði hins vegar ekki mætt þangað.

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG, sagði að hún teldi að meirihlutasamstarf stæði og félli á heilindum og trausti. Það væri dapurlegt að samstarf fjögurra flokka í borgarstjórn skuli nú enda með óheilindum eins og þessum.

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, sagði að sú lausung, sem væri að verða með reglubundnum hætti í borgarmálum, væri ekki til þess fallin að skapa traust á stjórnmálum.

Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi F-lista, sagði að hún ætlaði að sitja áfram sem varamaður Ólafs þótt hún styddi ekki nýja meirihlutann. Hún væri óháður borgarfulltrúi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert