F-listi og D-listi í samstarf

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir á Kjarvalsstöðum í …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir á Kjarvalsstöðum í kvöld. mbl.is/Júlíus

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, tilkynnti á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum að flokkurinn og Sjálfstæðisflokkur muni taka upp meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur sem eigi að standa út kjörtímabilið.

Ólafur sagði á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum, þar sem nýi meirihlutinn var kynntur, að fyrir lægi að F-listinn hefði átt erfitt með að koma sínum áherslum fram í því meirihlutasamstarfi, sem staðið hefur yfir síðustu fjóra mánuði og listinn hefur átt aðild að.

Ólafur las upp eftirfarandi yfirlýsingu og sagði stefnumörkun nýja meirihlutans bera mjög keim af stefnumálum F-listans:

Borgarfulltrúar F-listans og Sjálfstæðisflokksins munu eiga með sér meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur til loka kjörtímabilsins. Flokkarnir hafa kynnt sér stefnumál hvor annars og munu hafa þau til hliðsjónar í störfum sínum á kjörtímabilinu á jafnréttisgrundvelli. Sérstök áhersla verður lögð á eftirfarandi verkefni:

  • Reykjavíkurflugvöllur verður sýndur í óbreyttri mynd á aðalskipulagi á meðan rannsóknir standa yfir vegna nýs flugvallarstæðis á höfuðborgarsvæðinu. Ekki verður tekin ákvörðun um flutning Reykjavíkurflugvallar á kjörtímabilinu.
  • Leitað verður leiða til að varðveita 19. aldar götumynd Laugavegarins og  miðborgarinnar eins og kostur er.
  • Framkvæmdir hefjist sem fyrst við mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. 
  • Staðarvali og annarri undirbúningsvinnu vegna lagningar Sundabreytar verði lokið sem fyrst svo framkvæmdir geti hafist.
  • Áhersla verður lögð á að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.
  • Almenningssamgöngur verða efldar. Tilraun um frían aðgang fyrir ákveðna hópa verði haldið áfram. Fargjöld í strætisvagna verði felld niður hjá börnum og unglingum að 18 ára aldri sem og öldruðum og öryrkjum. Unnið verði að því að bæta leiðakerfið og þjónustu við farþega.
  • Fjölgun hjúkrunarrýma og þjónustuíbúða fyrir aldraða.
  • Efling og samþætting heimaþjónustu og heimahjúkrunar.
  • Tekjumörk vegna niðurfellingar fasteignaskatta fyrir elli- og örorkulífeyrisþega verða hækkuð verulega.
  • Fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði verða lækkaðir á árinu.
  • Félagslegum leiguíbúðum Reykjavíkurborgar verður fjölgað um 100 árlega 2008-2010 eða um samtals 300 á tímabilinu. 
  • Framboð lóða fyrir fjölskyldur og atvinnurekstur verður tryggt.
  • Þjónusta leikskóla og grunnskóla verður aukin og faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði þeirra styrkt.
  • Unnið verður að því að auka öryggi í miðborg Reykjavíkur í samvinnu við lögreglu, íbúa og rekstaraðila.
  • Átak verður gert við merkingu og varðveislu sögufrægra staða í borginni.
  • Lögð er áhersla á verndun óspilltrar náttúru og að dregið verði úr mengun í borginni þannig að tryggja megi íbúum vistvænt og öruggt umhverfi.
  • Orkuveita Reykjavíkur og orkulindir þeirra verða áfram í eigu almennings.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert