Ríkisstjórn Íslands hefur afhent söfnunarnefnd nýs félagsheimilis í Mountain í Norður-Dakóta 75.000 dollara að gjöf til verksins. Forystumenn söfnunarinnar segja styrkinn vega mjög þungt, en safna þarf 676.000 dollurum til að fá sömu upphæð frá opinberum aðilum í Norður-
Dakóta.
Í frétt frá söfnunarnefndinni segir að með styrk Íslands hafi safnast um 300.000 dollarar. Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi verið greint frá fyrirhuguðu átaki á árlegri Íslandshátíð, Deuce of August Icelandic Celebration, í sumar og hann tekið vel í að koma að málinu.
Tim Moore, bæjarstjóri í Mountain og annar formaður söfnunarnefndarinnar, segir að framlag Íslands sé mikilvægt skref í að ná takmarkinu. „Við erum innilega þakklát fyrir þennan mikla styrk frá Íslandi,“ segir hann.
Curtis Olafson, hinn formaður nefndarinnar, tekur í sama streng. Hann segir að tengslin við Ísland hafi styrkst mjög mikið á undanförnum árum og þessi myndarlegi styrkur snerti hverja taug og sé afrakstur góðs sambands.