Landsvirkjun hefur uppfært arðsemismat vegna Kárahnjúkavirkjunar sem stuðst var við þegar ákvörðun var tekin í árslok 2002 um samninga við Alcoa og byggingu virkjunarinnar. Helstu niðurstöður matsins eru að arðsemi reiknast meiri en gert var ráð fyrir árið 2002 og er jákvætt núvirði framkvæmdarinnar mun hærri en samkvæmt upprunalegri áætlun.
Fyrri endurskoðun á arðsemismatinu sem fram fór árið 2006 leiddi í ljós að heldur hafði dregið úr arðsemi verkefnisins þótt það stæðist áfram arðsemiskröfur eigenda Landsvirkjunar.
Ný endurskoðun núna leiðir í ljós að arðsemin er meiri en fyrri athuganir hafa sýnt. Meginskýringin er sú að tekjur reiknast hærri en gert var ráð fyrir og vegur þar þyngst hærra álverð.
Helstu niðurstöður arðsemismatsins eru að vænt arðsemi eiginfjár reiknast nú 13,4%, en upphaflegt mat gerði ráð fyrir 11,9% arðsemi.
Jákvætt núvirði framkvæmdarinnar umfram arðsemiskröfur eigenda er samkvæmt matinu 15,5 milljarðar króna, þetta er 8,9 milljarða hækkun frá upphaflegri áætlun.
Árlegur hagnaður fyrir skatta af Kárahnjúkavirkjun er áætlaður að meðaltali 4.220 m.kr. á verðlagi ársins 2008.
Capacent hefur gefið út álit sitt á matinu og segir það gefa raunsæja mynd af væntri arðsemi. Þá segir að forsendur matsins séu í nokkrum tilvikum óþarflega varfærnar.
Arðsemismatið byggist á forsendum um stofnkostnað, raforkusölu, álverð og þróun þess, gengi Bandaríkjadals, rekstrarkostnað og líftíma virkjunarinnar sem og fjármagnskostnað.