Ólafur: Áherslur komu mjög seint fram

Nýr meirihluti kynntur á blaðamannafundi í dag.
Nýr meirihluti kynntur á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Júlíus

Ólafur F. Magnússon, sem væntanlega verður kjörinn borgarstjóri á fimmtudag, sagðist í Kastljósi Sjónvarpsins ekki líta svo á að hann væri að svíkja fyrri samstarfsmenn sína með því að mynda nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Áherslur F-listans hefðu ekki komist nægilega vel til skila í fráfarandi meirihluta.

Ólafur sagðist skilja mjög vel vonbrigði Dags B. Eggertssonar, fráfarandi borgarstjóra, vegna þess, að hann væri mjög góður foringi og borgarstjóri og hefði leitt  þennan hóp vel. Hins vegar hafi staða F-listans innan meirihlutans verið mjög veik.

Dagur sagði fyrr í kvöld, að hann hefði ítrekað verið í sambandi við Ólaf, sem hefði fullvissað sig um að fréttir um nýjar meirihlutaviðræður væru ekki réttar. Ólafur sagði, að það hefði ekki verið fyrr en líða fór á daginn, að þær áherslur, sem lagðar eru í nýju meirihlutasamkomulagi, fóru að koma upp á yfirborðið. Því hefði staðan, eins og hann lýsti fyrir Degi, verið þannig á þeim tímapunkti.

Ólafur ítrekaði, að staða F-listans hefði verið erfið í fyrra meirihlutasamstarfi. Það hefði einnig verið áberandi í fráfarandi meirihluta, að F-listinn hafði ekki sterka rödd og segja mætti, að ekki hafi verið talað nógu skýrt fyrir þeim í nokkurn tíma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert