Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, verður borgarstjóri í nýjum meirihluta á fyrri hluta tímabilsins en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, verður borgarstjóri síðari hluta tímabilsins. Rúm tvö ár eru eftir af kjörtímabilinu. Óskað verður eftir borgarstjórnarfundi á fimmtudag þar sem valdaskiptin fara fram.
Ólafur sagði á blaðamannafundi á Kjarvalsstöðum, þar sem nýi meirihlutinn var kynntur, að fyrir lægi að F-listinn hefði átt erfitt með að koma sínum áherslum fram í því meirihlutasamstarfi, sem staðið hefur yfir síðustu fjóra mánuði og listinn hefur átt aðild að.
Vilhjálmur sagðist aðspurður telja, að hann njóti trausts borgarbúa eftir það sem á undan er gengið, m.a. í málefnum Reykjavik Energy Invest.
Ólafur kom nýlega til starfa í borgarstjórn á ný eftir veikindaleyfi. Hann var spurður á blaðamannafundinum hvort hann teldi sig hafa heilsu til að sinna jafn erfiðu verkefni og borgarstjórastarfi sagði hann spurninguna vera óviðeigandi.