Samstarf við Djíbútí um samstarf í jarðhitamálum

Hús Orkuveitu Reykjavíkur.
Hús Orkuveitu Reykjavíkur.

Skrifað var í dag undir yfirlýsingu milli Reykjavik Energy Invest, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, og ríkisstjórnar Djíbútí um samstarf í jarðhitamálum. Yfirlýsingin kemur í kjölfar útgáfu sérleyfis sem REI fékk til nýtingar á Assal misgenginu í febrúar 2007. 

Að sögn Orkuveitu Reykjavíkur er að ljúka fýsileikakönnun á jarðhitanýtingunni. Verði niðurstaða hennar jákvæð er ráðgert að skrifa undir samninga um framkvæmdir og raforkuverð fyrir marslok 2008.

Í yfirlýsingunni ítreka aðilar áform sín sem miða að því að útvega íbúum og atvinnulífi í Djíbútí ódýrari og umhverfisvænni orku. Allt rafmagn í landinu er nú framleitt í díselvélum en talið er að hægt sé að sinna nánast allri raforkuþörf landsins með virkjun jarðhita.

Undirritunin fór fram í Dúbæ, að viðstöddum forsetum Djíbútí og Íslands þeim Ismail Omar Guelleh og Ólafi Ragnari Grímssyni. Þar stendur nú yfir alþjóðleg umhverfis- og orkuráðstefna.

Við sama tækifæri skrifuðu Mohamed Ali Mohamed, orku- og auðlindaráðherra Djíbútí, og Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, undir yfirlýsingu um samstarf og sameiginlega hagsmuni ríkjanna. Í henni segir að í ljósi vaxandi mengunar í veröldinni og vaxandi þarfar fyrir umhverfisvæna orkugjafa muni ríkin tvö starfa saman að þróun jarðhitamála til hagsbóta fyrir íbúa landanna.

Íslenskir vísindamenn hafa um árabil starfað að jarðhitaverkefnum í austanverðri Afríku, þar með talið í Djíbútí og hingað hafa fjölmargir afrískir nemendur sótt menntun á sviði jarðhitanýtingar á vettvangi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Svæðið sem rannsóknirnar munu beinast að er Assal-sprungan sem er á nyrsta hluta plötuskilanna sem ná frá Djíbútí langt suður eftir Afríku austanverðri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka