Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði að ástand mála á Gasaströndinni væri skelfilegt eftir að Ísraelsmenn lokuðu landamærum svæðisins. Sagði Ingibjörg Sólrún að lokun landamæranna væri hóprefsing gegn Palestínumönnum og slíkt væri ólöglegt samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum.
Sagðist Ingibjörg Sólrún ætla að reyna að hafa samband við Tsibi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og koma þessum sjónarmiðum Íslendinga á framfæri.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, tók þetta mál upp í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag og vísaði m.a. í bréf, sem Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins Ísland-Palestína, skrifaði um ástandið á Gasasvæðinu.
Ingibjörg Sólrún sagðist hafa í morgun hringtí framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinu þjóðanna í Palestínu, sem hafi sagt að ástandið þar hefði aldrei verið verra í þau sjö ár sem framkvæmdastjórinn hefði verið þar. Ljóst væri, að ástandið ætti eftir að versna.
Ráðherra sagði eðlilegt að bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn reyni að gæta öryggis sinna íbúa en það yrði að gera með viðunandi hætti. Hún sagði, að eldflaugaárásir Palestínumanna á Ísrael væru ólíðanlegar en það réttlætti ekki þá hóprefsingu, sem Ísraelsmenn hefðu gripið til.