SUS mótmælir handtökum í Hvíta-Rússlandi

Samband ungra sjálfstæðismanna tók í dag þátt í mótmælum Democratic Youth Community of Europe (DEMYC) og sendi sendiherrum Hvíta-Rússlands í Stokkhólmi og Lundúnum bréf, þar sem tilefnislausum handtökum 10 nafngreindra einstaklinga er harðlega mótmælt.

SUS tók þátt í heimsókn DEMYC til Hvíta-Rússlands 7. – 13. janúar síðastliðinn en markmið ferðarinnar var að kynna sér aðstæður í þessu síðasta einræðisríki Evrópu.

SUS segir, að eftir heimkomu hafi 10 einstaklingar úr ungliðahreyfingum stjórnarandstöðuflokkanna verið handteknir, þar á meðal margir þeirra sem tekið höfðu á móti sendinefndinni. Voru þeir dæmdir til 15 daga fangelsisvistar fyrir að hafa viðhaft óviðeigandi orðafar á almannafæri.

SUS segir, að viðkomandi einstaklingar hafi ekkert sér til saka unnið og virðist handtökurnar stafa af því að þeir tóku á móti sendinefnd DEMYC til landsins. Sé það til marks um þá kúgun sem stjórnarandstaðan í landinu þurfi að búa við, að stjórnvöld leyfi sér að nota slíkan fyrirslátt til að loka fólk inni að tilefnislausu.

Umræddir einstaklingar eru á aldrinum 18–22 ára og virkir í ýmsum ungliðahreyfingum stjórnarandstöðuflokka.

Auk mótmælabréfanna hyggst SUS standa fyrir sýningu á heimildamyndinni The Lesson of Belarusan fyrir almenning. Heimildarmyndin, sem fjallar um síðustu forsetakosningar í Hvíta-Rússlandi, verður sýnd miðvikudaginn 23. janúar kl. 20 í Iðnó og verður staðið fyrir pallborðsumræðum í kjölfarið.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert