Tapaði vegna framkomu

Ivan Cheparinov.
Ivan Cheparinov.

Sérstakt atvik átti sér stað í B-flokki Corus-ofurskákmótsins í Wijk an Zee í Hollandi í gær þegar búlgarska stórmeistaranum Ivan Cheparinov var dæmt tap í skák sinni gegn enska stórmeistaranum Nigel Short eftir aðeins einn leik. Ástæðan var sú að Cheparinov neitaði að taka í höndina á andstæðingi sínum, í tvígang.

Grunnt hefur verið á því góða á milli Shorts og búlgarskra skákmanna í kjölfar ársgamalla ummæla Englendingsins um Silvio Danailov, umboðsmann Cheparinovs og Veselin Topalovs sem er einn allra sterkasti skákmaður heims. Þar sakaði Short þá Danailov og Topalov um svindl á mótinu í Wijk an Zee í fyrra sem og heimsmeistaramótinu í San Luis í Argentínu árið 2005 – sem Topalov sigraði á.

Ekkert stendur í reglum Alþjóðaskáksambandsins, FIDE, um að handaband fyrir skák sé skylda en í sumar gaf forsetanefnd sambandsins út að sýndu skákmenn andstæðingum sínum ósæmandi framkomu, t.d. neituðu að heilsa þeim fyrir skák á hefðbundinn hátt, bæri dómara að vara viðkomandi við og dæma skákina síðan tapaða ef ekki væri úr bætt. Í tilkynningu frá FIDE var sagt að ástæða þess að nefndin kom saman hefði verið sú að mörg tilvik hefðu komið upp á skömmum tíma þar sem hegðan skákmanna væri óviðunandi.

Cheparinov áfrýjaði úrskurði dómarans en tekið var fram í áfrýjuninni að hann hefði bent dómaranum á tilmæli forsetanefndarinnar og sagt að krefðist dómari þess myndi hann rétta Short höndina og í gærkvöldi ákvað áfrýjunarnefnd mótsins að skákin skyldi tefld aftur í dag. Jafnframt skikkaði hún Búlgarann til þess að biðja Short skriflega afsökunar á framkomu sinni og tók fram að þeir skyldu heilsast með handabandi áður en skákin hæfist. Neitaði annar skákmannanna að fara að þessum tilmælum yrði honum dæmt tap. Fyrstu viðbrögð Shorts munu hafa verið þau að neita að tefla skákina á ný og seint í gærkvöldi lá ekki fyrir hvort skákin yrði endurtekin. Í úrskurðinum var lagt til að í framtíðinni yrðu tilmæli forsetanefndarinnar látin gilda.

Í hnotskurn
» Mál þetta þykir afar athyglisvert í ljósi þess að Silvio Danailov lét hafa eftir sér í fjölmiðlum fyrir helgi að Topalov myndi ekki taka í hönd Vladimirs Kramniks í skák þeirra á morgun.
» Topalov og Kramnik eru miklir óvinir í kjölfar heimsmeistaraeinvígis þeirra árið 2005.
» Athygli vekur að Kramnik er í áfrýjunarnefnd mótsins og var meðal þeirra sem úrskurðuðu að skákin skyldi tefld á ný.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert