Veðurstofan hefur sent frá sér stormviðvörun en búist er við stormi á landinu í nótt og á morgun. Spáð er hlýnandi veðri og talsverðri rigningu. Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð verður virkjuð kl. 23 í kvöld og verða björgunarsveitir, slökkvilið og lögregla í viðbragðsstöðu.
Birgir Finnsson, sviðstjóri útkallssviðs hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að gert sé ráð fyrir asahláku með tilheyrandi vatnsvandræðum þar sem töluverður snjór sé fyrir á svæðinu. Sérstök athygli er vakin á hárri sjávarstöðu klukkan 6 í fyrramálið, t.d. í Grindavík, á Akranesi og í Reykjavík.
Svo draga megi úr óþægindum og skemmdum eru íbúar hvattir til að huga vel að niðurföllum í kringum hús sín, moka frá og setja salt í ef á þarf að halda. Þetta á ekki síst við um niðurföll í tröppum og öðrum stöðum sem liggja að niðurgröfnum kjöllurum.