Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, sagði ákvörðun Ólafs F. Magnússonar, oddvita Frjálslynda flokksins, hafa borið brátt að.
„Í skemmstu máli var enginn aðdragandi og engin óánægja sem hann hafði á orði við okkur. Ég held að það séu bara einhverjar sýndarskýringar eftir á til að útskýra eitthvað sem mér finnst fullkomlega órökrétt og úr heiðskírum himni.“
Dagur vísaði því einnig á bug að Ólafur væri ósáttur við að ekki hefði verið gerður málefnasamningur innan fráfarandi meirihluta og að Frjálslyndi flokkurinn hefði ekki náð að koma sínum málum fram.
„Það er bara innihaldslaust geip, vegna þess að það eru tvær vikur síðan við oddvitarnir ákváðum í sameiningu að gera málefnasamning í tengslum við þriggja ára áætlun um næstu mánaðamót. Við vorum búin að setja niður vinnuferð á mánudag og þriðjudag í næstu viku til að ganga frá honum.“
Dagur hefur ekki trú á nýja meirihlutanum.
„Hann er augljóslega mjög veikur. Ekki bara vegna þess hvernig til hans er stofnað, eða hvernig hann er skipaður, heldur líka vegna þess að sá glundroði sem hefur verið augljós innan Sjálfstæðisflokksins á undanförnum vikum, hann er ennþá til staðar og þau sár eru öll enn opin. Það opinberar hið augljósa vantraust á oddvita sjálfstæðismanna sem borgarfulltrúarnir hafa verið að ítreka núna í eina þrjá mánuði, heyrandi og í hljóði.“
Svandís Svavarsdóttir segir kjósendur mega vænta ávaxtar góðs samstarfs félagshyggjufólks í Reykjavík, eftir tíðindin í gær.
Hver hann verði muni skýrast.
„Mér finnst afar gott að finna kraftinn í okkar hópi, okkar sameinaða hópi félagshyggjufólks í Reykjavík og ég hef væntingar til þess að það góða samstarf eigi eftir að ala af sér ávöxt og jafnvel einhvern óvæntan.“
– Hvað ertu að gefa í skyn?
„Við skulum bara láta lesendum eftir að finna út úr því.“
Hún segist hafa treyst Ólafi og að hún hafi kosið að tortryggja hann ekki.
„Ég gerði mér nú ekki grein því, nei. Ég kaus nú að líta svo á að allar sögusagnir sem hafa verið í gangi um sinn hafi verið úr lausu lofti gripnar, vegna þess að ég treysti Ólafi F. Magnússyni. Ég taldi rétt að treysta hans orðum og hef verið með honum á fundum að undanförnu og lít svo á að gott meirihlutasamstarf byggi á trausti. Þannig að ég kýs ekki að tortryggja fólk að jafnaði.“
– Hvað með þau orð að Ólafur hafi talið sig ekki ná að vinna að sínum málum í fráfarandi meirihluta?
„Hann hafði nú ekki fyrir því að hafa orð á því í okkar hópi. Við höfum haft þann háttinn á að hittast tvisvar í viku oddvitarnir, þessir fjórir einstaklingar sem hver leiðir sína stjórnmálahreyfingu í þessu samstarfi. Hann hefur ekki haft á orði að hann liti svo á að meirihlutinn væri í sérstakri hættu vegna einhverra sérstakra málefna. Hann hefur ekki gert það. Þannig að hann hefur ekki sýnt okkur þau heilindi að setja þann ágreining á borðið og reyna að leysa úr því.“
– Rædduð þið á þessum fundum um þann orðróm sem þú vísar til?
„Já, já. Við gerðum það.“
– Þið hafið leitað eftir þessu við Ólaf?
„Við ræddum um orðróminn og að orðrómur hefur verið uppi um þreifingar gagnvart vinstri grænum og Framsóknarflokki og gagnvart fleiri og í sjálfu sér gagnvart okkur öllum. Okkur fannst mikilvægt að setja það upp á borðið og horfast í augu hvert við annað og sannfæra okkur um að við værum í þessu saman en ekki til þess að ganga á bak orða okkar.“
Hafa sjálfstæðismenn þá átt í viðræðum við alla flokka?
„Ég svara ekki fyrir aðra flokka, en það hafa ekki farið fram viðræður við mig.“
– Hvað með þau orð að skortur á málefnasamningi hafi verið þáttur í ákvörðun Ólafs?
„Ég held að það sé nú fyrirsláttur fyrst og fremst. Eins og ég sagði þá var enginn málefnalegur ágreiningur uppi og hafði ekki komið upp neitt slíkt. Mér finnst þetta fyrst og fremst sorglegt mál. Mér finnst þetta vottur um það að sjálfstæðismenn líta svo á að þeir séu einhvern veginn réttbornir til valda og að þeir ganga mjög langt.
Ég vil segja í þessu sambandi að þeir leggjast mjög lágt til þess að ná sér í völd. Ólafur F. Magnússon er ekki einu sinni stjórnmálahreyfing. Hann er einstaklingur í þessu tilviki. Hans fyrsti varamaður stendur ekki með þessum nýja meirihluta. Þannig að meirihlutinn er miklu veikari en ella.
Mér finnst allt slíkt tal afar ótrúverðugt. Mér finnst líka mjög alvarlegt í sjálfu sér að borgarbúar í gegnum aðdraganda nýs meirihluta voru á mjög kraftmikinn og háværan hátt búnir að hafna tilteknum vinnubrögðum sem einkennast af laumuspili, ómerkilegheitum og baktjaldamakki, sem var REI-málið eins og það lagði sig og þar var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í lykilhlutverki. Hann er aftur í lykilstöðu í því laumuspili sem hér hefur farið fram og ég held að almenningur hafi hafnað þessu og ég hef trú á því að almenningur hafi hafnað vinnubrögðum Vilhjálms og vilji hann ekki aftur.“
Björn Ingi Hrafnsson segist eins og aðrir borgarfulltrúar fráfarandi meirihluta hafa haft orð fyrir því að þreifingar um að slíta samstarfinu væru ekki í gangi.
„Ég gerði mér grein fyrir því að sjálfstæðismenn myndu gera margt til að reyna að komast aftur í meirihluta, en ég og við höfðum bara orð hvert annars fyrir því að það væri ekkert slíkt í gangi. Dagur var í ítrekuðum samskiptum við Ólaf síðustu daga, m.a. vegna þess að þessi kvittur var kominn á kreik.“
– Hvað með þá skýringu að Ólafur hafi metið það svo að Frjálslyndi flokkurinn hafi ekki komið sínum málum í gegn og að þess vegna hafi hann tekið þessa ákvörðun?
„Það kemur ekki í ljós fyrr en í slíkum viðræðum hvort það er þá einhver ágreiningur. Og það hafði ekki komið upp neinn ágreiningur.
Þar með er sú kenning fallin um sjálfa sig. Ég á eftir að sjá hvernig þessum flokkum á eftir að ganga að vinna saman núna. Ég man eftir samtölum við sjálfstæðismenn í upphafi kjörtímabilsins, þegar þeir höfðu fyrst reynt að mynda meirihluta með Ólafi F. Magnússyni og komu heldur undrandi og laskaðir undan þeim viðræðum vegna þeirra miklu krafna sem hann setti þeim. Kannski gengur þetta betur í annarri tilraun.“
– Heldurðu að nýi meirihlutinn lifi út kjörtímabilið?
„Ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn um það. Kannski fyrst og fremst [vegna þess] að það er svo óvenjuleg staða uppi í því, að mér skilst að Ólafur hafi ekki talað við einn einasta samstarfsmann sinn í F-listanum um þennan meirihluta. Þetta kemur samstarfsmönnum hans [...] algjörlega í opna skjöldu. Þeir hafa í raun lýst því yfir að þeir styðji ekki meirihlutann.“
Margrét Sverrisdóttir segist, spurð um aðdragandann að falli meirihlutans, ekki hafa gert sér grein fyrir að Ólafur stæði í þessum þreifingum við sjálfstæðismenn.
„Nei, alls ekki, enda neitaði hann því við mig aðspurður í morgun, klukkan tíu í morgun og í rauninni aftur um hálf-fjögur leytið þegar ég sagði „Þú verður að bera þetta til baka, því að fjölmiðlar eru alveg að ærast, af því það er ekkert gert“.
Þá talaði hann eins og hann ætti bara eftir að skoða það með Degi og fleirum.“
– Hafðir þú haft eitthvert veður af því að Ólafur hefði verið í þessum þreifingum undanfarna daga?
„Ég hafði pata af því að sjálfstæðismenn höfðu lengi verið að vinna í honum.“
– Hvað viltu segja um að Ólafur hafi litið svo á, að flokki sínum hefði ekki tekist að koma málum í gegn í gamla meirihlutanum?
„Mér finnst það vera hlægilegt að til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn skuli tala þannig núna að við höfum borið skarðan hlut frá borði, því ef við einhvern tímann bárum skarðan hlut frá borði þá var það eftir að við unnum stórsigur í kosningum og Sjálfstæðisflokkurinn lét okkur bókstaflega ekkert hafa. Þannig að það kemur úr hörðustu átt þegar sjálfstæðismenn halda því fram að við höfum borið skarðan hlut frá borði.“
– Hvað með þau ummæli að skortur á málefnasamningi innan gamla meirihlutans hafi skipt máli?
„Það er alveg rétt að við gerðum ekki málefnasamning. Við vildum sýna það í verki hvert við værum að stefna og ég tel að það hafi þessi meirihluti gert með ágætum. Sýnt bæði fram á það í verki og í fjárhagsáætlun og öðru sem til stóð að framkvæma. Ég vil líka bara segja það að mér finnst þetta vera svo niðurlægjandi vinnubrögð af hálfu Ólafs F. Magnússonar. Mér finnst þetta með ólíkindum, þessi óheilindi, að tala ekki betur við fólkið sitt.
Ég verð að segja það að ég er næst á eftir honum á lista og búin að vera óháður borgarfulltrúi. Ég átti mjög ríkan þátt í því að Ólafur F. Magnússon er borgarfulltrúi í dag. Ég vann af miklu kappi með honum í kosningabaráttu á sínum tíma, þannig að mér finnst þetta vera andstyggileg vinnubrögð í pólitíkinni.“
– Hvernig metur þú framtíð Ólafs innan síns flokks?
„Nú reynir á hann.“
– Hvað viltu segja um meirihlutann?
„Hann er veikur. Ég held að það sjái það allir.“