Vinnsla verður stöðvuð í fiskvinnslu Vísis á Þingeyri og á Húsavík í fimm mánuði í vor, frá 1. maí-1. október. Andrés Óskarsson, fjármálastjóri Vísis segir að þetta sé gert vegna fyrirsjáanlegs hráefnisskorts en Vísir varð fyrir 2.700 tonna skerðingu vegna niðurskurðar á þorskaflaheimildum í haust. Segir Andrés að væntanlega komi ekki til tímabundin vinnslustöðvum á fleiri stöðum þar sem Vísir rekur fiskvinnslu.
Andrés segir að engum verði sagt upp vegna þessa hjá Vísi en að starfsfólk verði verkefnalaust í fimm mánuði bæði á Húsavík og Þingeyri. Segir hann vinnslustöðvunina beina afleiðingu af niðurskurði á veiðiheimildum. Segir hann að fyrirtækið reyni að stöðva vinnslu í eins skamman tíma og hægt er. Á Húsavík er eingöngu um vinnslu á ýsu að ræða en á Þingeyri er auk ýsu unninn smáþorskur til útflutnings.