Ástæður þess að Ólafur F. Magnússon gaf færi á sér voru margþættar. Honum fannst Frjálslyndir ekki nógu áhrifamiklir í samstarfinu, það gekk illa að ná fram stefnumálum flokksins og þegar hann kallaði opinberlega eftir málefnasamningi gaf Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lítið fyrir það.
Stærsta og vinsælasta kosningamál Frjálslyndra var til að mynda að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram í Vatnsmýrinni, en afar skiptar skoðanir voru um það hjá Samfylkingu, Framsókn og Vinstri grænum. Það er hins vegar efst á lista í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og Frjálslyndra að ekki verði tekin ákvörðun um flutning flugvallarins á kjörtímabilinu.
Einnig er þar ofarlega á blaði að leitast verði við að friða 19. aldar götumynd Laugavegarins og miðborgarinnar og að framkvæmdir hefjist sem fyrst við mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, en um hvort tveggja voru skiptar skoðanir í fyrri meirihluta.