Ólafur F. Magnússon, formaður flokks frjálslyndra í Reykjavík og verðandi borgarstjóri, segir það mikil vonbrigði að Margrét Sverrisdóttir og Guðrún Ásmundsdóttir hyggist ekki starfa með F-listanum. Hann segist túlka tilkynningu fráfarandi meirihluta sem svo að þær vilji ekki sitja í nefndum í borginni í skjóli umboðs flokksins.
Samfylking, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Framsóknarflokkurinn sendu ásamt Margréti og Guðrúnu frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem fram kom að hópurinn hyggðist áfram starfa saman að borgarmálum þótt meirihlutasamstarfinu hefði verið slitið.
„Mér þykir leitt ef Margrét vill ekki áfram vera formaður í mennta- og ferðamálanefnd, en það hefur verið gagnkvæm ánægja með hennar störf. Það er ljóst að ef ég skil þetta rétt, þá eru þær að snúa baki við okkur [flokknum] og kjósendum og þeim málefnum sem þær voru kjörnar út á."
Þessu segist Ólafur ekki hafa viljað trúa fyrirfram og að reynt hafi verið ítrekað og árangurslaust að ná tali af Margréti og Guðrúnu. Hann segist túlka fréttatilkynningu Samfylkingar, vinstri-grænna og framsóknarmanna sem svo að þær vilji ekki láta ná í sig.
„Þær verða að gera það upp við sig sjálfar ef þær vilja kalla yfir sig áhrifaleysi innan borgarstjórnar það sem eftir er af kjörtímabilinu."
Um framtíðina hjá flokknum segir Ólafur að hann finni fyrir miklum stuðningi frá grasrót flokksins og kjósendum við sig sem oddvita og málefni flokksins.
Ekki hefur verið rætt um það hverjir taki að sér nefndarsstörf fyrir flokkinn, en ekki er kveðið á um að aðilar í nefndum borgarinnar skuli vera kjörnir borgarfulltrúar.
Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður, segir að engar sérstakar reglur gildi um það hverjir megi sitja í nefndum á vegum borgarinnar nema hvað nefndarmenn verði að búa í kjördæminu og formenn nefnda verði að vera borgarfulltrúar eða varaborgarfulltrúar.
Segir Kristbjörg að öðru máli gildir reyndar um sjálfa borgarstjórn og borgarráð, en að í almennum fagnefndum gildi almennt það eitt að formaður skuli vera kjörinn borgarfulltrúi eða varaborgarfulltrúi. Ekki er heldur gerð krafa um að nefndarmenn hafi skipað sæti á lista flokks í borgarstjórn.