Konur eru umtalsvert fleiri en karlar meðal nemenda í framhaldsskólum og háskólum. Alls stunda 26.305 konur þar nám á móti 19.763 körlum. Konur eru 57,1% nemenda á þessum tveimur skólastigum en hlutur karla er 42,9%.
Hagstofan segir, að ef skipting kynja sé skoðuð eftir skólastigi séu konur 53,3% nemenda á framhaldsskólastigi en 63,1% nemenda á háskólastigi.
Í Háskóla Íslands eru konur meirihluti nemenda í öllum deildum nema verkfræðideild. Í verkfræðideild eru karlar 70,4% nemenda en konur 29,6%. Mestur er munurinn í hjúkrunarfræðideild en þar eru konur 97,0% nemenda en karlar einungis 3%. Jafnast er hlutfall kynja í lagadeild þar sem konur eru 51,9% nemenda.