Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Björn Ingi Hrafnsson formaður íþrótta- og tómstundaráðs, skrifuðu í dag undir þjónustu- og rekstrarsaminga við 25 íþróttafélög og æskulýðssamtök í Reykjavík.
Á samningstímanum nemur stuðningur Reykjavíkurborgar vegna þessara samninga til félaganna alls 4,8 milljörðum króna.
Samningarnir eru til þriggja ára og í þeim er kveðið á um stuðning Reykjavíkurborgar vegna þjónustu félaganna við borgarbúa, húsaleigu- og æfingastyrkja, styrkja vegna íþróttafulltrúa og starfsmanna, styrki vegna fasteignaskatta, byggingastyrkja og sumarnámskeiða.
Félögin sem samið er við eru: ÍBR, Ármann, Þróttur, KR, Fram, Víkingur, Fylkir, ÍR, Fjölnir, Leiknir, Skautafélagið Björninn, Hestamannafélagið Fákur, Golfklúbbur Reykjavíkur, Íþróttafélag fatlaðra, Júdófélag Reykjavíkur, Karatefélag Reykjavíkur, Skautafélag Reykjavíkur, Skylmingafélag Reykjavíkur, TBR, Þórshamar, Klifurfélag Reykjavíkur, Valur, Sundfélagið Ægir, Skátasamband Reykjavíkur og KFUM og K.
Þá er sérstakur samningur í gildi við ÍBR, sem er aðili að öllum samningunum við íþróttafélögin ásamt ÍTR.
Samningar þessir kveða á um hlutverk og skyldur félaganna gagnvart borgarbúum og borgaryfirvöldum og samstarf Reykjavíkurborgar við félögin þar sem m.a. koma fram þau verkefni sem félögin taka að sér að sinna. Þá er skilgreint hvað Reykjavíkurborg leggur til vegna samstarfsins.