„Mér var nokkuð brugðið og maður hugsar út í hverslags stjórnmál er eiginlega komið,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við nýjum meirihluta í borgarstjórn.
Hann segir þetta útspil Sjálfstæðisflokksins ótrúlegt og að sínu mati sé farið yfir ákveðna línu í bæði pólitísku og siðferðislegu tilliti sem ekki sé venjan að fara yfir í íslenskum stjórnmálum. „T.d. það að kaupa ekki stuðning einstaklinga með æðstu embættum, menn yrðu a.m.k. að vera einhver hópur eða hafa einhvern flokk á bak við sig sem bæri þá ábyrgð á viðkomandi og væri pólitískt bakland,“ segir Steingrímur.
„Þetta er í mínum huga ekki til marks um neitt annað en einhverja hyldýpis-örvæntingu sem er eiginlega erfitt að skilja, af hverju menn geta ekki bara jafnað sig og sleikt sárin í minnihluta og tekið því eins og menn.“