Stórt þak er að losna af Netagerð Ingólfs í Vestmannaeyjum, segir í tilkynningu frá Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð núna laust fyrir klukkan átta í morgun. 12 tonna bátur sökk í höfninni í Keflavík og 180 tonna bátur slitnaði upp í Njarðvíkurhöfn í morgun og rak upp í fjöru. Enn má búast við snörpum vindhviðum víða á sunnan- og vestanverðu landinu.
Björgunarsveitir eru að störfum í Vestmannaeyjum, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu en þær voru kallaðar út í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu fór skipið Tjaldanes upp í fjöru í Njarðvík en búið er að koma skipinu aftur að bryggju. Í Keflavíkurhöfn fór 12 tonna bátur á hliðina og sökk skömmu síðar. Beðið er hagstæðari sjávarfalla svo hægt sé að ná honum upp.
Veðurstofa Íslands varar enn við stormi víða um land. Spáð er suðaustan og austan 20-28 m/s og rigningu eða slyddu, en lítið eitt hægari um tíma á norðanverðu landinu. Síðdegis er því spáð að vindur snúist til suðvesturs, 18-23 m/s með skúrum eða slydduéljum, en hægari og úrkomulítið á Norðaustur og Austurlandi. Lægir talsvert í kvöld.