Viðræður að frumkvæði Kjartans Magnússonar

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magússon kynna nýjan meirihluta …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magússon kynna nýjan meirihluta í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Það var stutt í brosið á fjölmiðlamönnum sem mættust á göngum Ráðhúss Reykjavíkur um sexleytið í gær. Án þess að nokkuð væri gefið til kynna með orðum. Spurst hafði að nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og frjálslyndra lægi í loftinu.

Starfsmenn Ráðhússins sögðu heldur afundnir aðeins „hefðbundinn“ fund í gangi hjá vinstri grænum. Annað kom á daginn þegar út gengu í einni halarófu fulltrúar allra flokka sem stóðu að þáverandi meirihluta. Enginn vildi láta hafa neitt eftir sér nema Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi frjálslyndra, sem sagði á hlaupum að hún tryði því ekki að Ólafur F. Magnússon myndaði nýjan meirihluta án þess að láta sig vita.

Auðvitað komst hún bara þannig að orði. Hún hafði talað við Ólaf F. Magnússon um morguninn og sagði hann þá engar viðræður í gangi við Sjálfstæðisflokkinn. Þegar þau töluðu saman klukkan hálffjögur var komið annað hljóð í strokkinn. Hann sagðist þurfa að vita hennar afstöðu ef til myndunar nýs meirihluta kæmi. „Þá sagði ég ljóst að hvorki ég né Guðrún Ásmundsdóttir styddum það sem hann væri að gera. Það væri niðurlægjandi og auðmýkjandi að hann skyldi ekki ráðfæra sig við þá sem næst honum stæðu.“

Viðræður um myndun nýs meirihluta fóru fram á heimili Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa. Og það var Kjartan sem hafði frumkvæði að þeim. Engin launung hefur verið á því að þeir hafa átt góð samskipti í gegnum tíðina og ekki borið skugga á. Eftir að Ólafur gekk úr Sjálfstæðisflokknum hafa þeir átt samleið í ýmsum málum sem ekki eru flokkspólitísk.

Á grundvelli þess trúnaðartrausts hófust samtöl og þreifingar sem síðar urðu viðræður. Þetta ferli virðist hafa staðið í nokkra daga með óformlegum hætti, þó að ekki hafi legið ljóst fyrir að af myndun nýs meirihluta yrði fyrr en í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert