Dómarafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun vegna síðustu skipun setts dómsmálaráðherra í embætti héraðsdómara. Í ályktuninni segir m.a. að það sé álit stjórnar félagsins að ráðherra beri að hafa hafa umsögn nefndar til hliðsjónar við skipun dómara eða færa fyrir því viðhlítandi rök, en það hafi ráðherra ekki gert.
Ályktun Dómarafélags Íslands:
Á síðustu áratugum hefur verið unnið að því að styrkja stöðu og sjálfstæði dómsvaldsins sem einn þátt ríkisvaldsins. Mikilvægum áfanga í því efni var náð með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989 og var sú braut fetuð áfram með lögum um dómstóla nr. 15/1998. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga um dómstóla var lögð á það áhersla að við mótun löggjafar um dómstóla yrði að hafa í huga eftirlitshlutverk þeirra með hinum tveimur valdþáttum ríkisins. Meðal verkefna dómstóla væri að skera úr um embættistakmörk yfirvalda, dæma í refsimálum sem framkvæmdarvaldið höfðaði og um það hvort löggjafinn hefði haldið sig innan þess ramma sem honum væri settur með stjórnarskrá. Síðan segir svo: „Með framangreint í huga hefur þeirri stefnu verið fylgt við samningu frumvarpsins að tryggja verði í sem ríkustum mæli að dómstólarnir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins sem þeir hafa eftirlit með. Verði jafnframt að miða ákvæði frumvarpsins við það að ekki sé nægilegt að þetta sjálfstæði dómstólanna sé tryggt í raun, heldur að sjálfstæðið og trúverðugleikinn, sem því fylgir, sé öllum sýnilegur.“
Til þess að sjálfstæði dómstóla sé tryggt í raun skiptir verulegu máli hvernig staðið er að skipun í dómaraembætti. Hafa og ýmsar alþjóðlegar reglur verið settar til viðmiðunar til að stuðla að því að ákvarðanir um skipun dómara séu reistar á málefnalegum grundvelli. Evrópusamtök dómara hafa sett reglur um það að val á dómara skuli eingöngu byggjast á hlutlægum sjónarmiðum sem tryggi faglega hæfni hans. Í tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins til aðildarríkja þess um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómara koma sömu sjónarmið fram. Alþjóðasamtök dómara hafa og ályktað um það að mikilvægt sé til þess að tryggja sjálfstæði dómstólanna að gætt sé algerlega hlutlægra viðmiðana við val á dómara. Á hinum Norðurlöndunum eru starfandi lögbundnar umsagnarnefndir og ber veitingavaldinu að taka tillit til álits þeirra við skipun í dómaraembætti.
Til þess að treysta sjálfstæði dómstóla að þessu leyti hér á landi var með lögum komið á fót sérstakri dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Tilgangurinn með nefndinni var jafnframt sá að auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins.
Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið er það álit stjórnar Dómarafélagsins að ráðherra beri við skipun í dómaraembætti að hafa hliðsjón af umsögn nefndarinnar þótt hann sé ekki bundinn af henni. Kjósi ráðherra á hinn bóginn að leggja umsögnina ekki til grundvallar, eins og gert var í því tilviki sem hér um ræðir, ber honum að færa fyrir því viðhlítandi rök. Stjórn Dómarafélags Íslands telur að það hafi ráðherra ekki gert.
Reykjavík, 23. janúar 2008
Í stjórn Dómarafélags Íslands
Eggert Óskarsson
Arngrímur Ísberg
Benedikt Bogason
Gréta Baldursdóttir
Hjördís Hákonardóttir